Lufsusögur

Wednesday, May 31, 2006

12 dagar!!!

Úff rosa þrýstingur!! Jæja þó klukkan sé að verða eitt eftir miðnætti og ég dauðþreytt eftir langan dag sem endaði á góðu og skemmtilegu matarboði hjá Maru mexikönsku, þá skal ég segja ykkur eitthvað skemmtilegt.

Eins og alltaf þá er alveg obboslega mikið að gera hjá mér. Undanfarnar tvær vikur höfum við haft um það bil 6 gesti. Fyrst komu Steina og Soffía eins og ég minntist áður á, svo kom Ingirafn gamall og góður kunningi og svo hin yndislega fjölskylda Helgi, Magga og Vigfús litli, jiii hvað það var gaman:o)

Belle & Sebastian stóðu sig með miklu prýði í Columbiahalle og skemmtum við okkur alveg ótrúlega vel á þeim tónleikum. Hmm og var ég búin að minnast á Calexico tónleikana?? Allavega þá voru þeir truflaðir, hiklaust á topp fimm listann hjá mér! Já og Cleaning Woman koma enn á óvart!

Að lokum vil ég minnast á frábæran hjólreiðatúr sem við familían fórum í síðasta laugardag með íslenskunemum úr Humboldt eða þ.e.a.s með tandem félaga mínum honum Birni, Önnu og Jan. Þetta var alveg ótrúlega yndislegur dagur. Við byrjuðum á að hjóla í gegnum Grünewald og niður að Wannsee þar sem við pikknikkuðum, fórum í boltaleik úr "heimatilbúnum" bolta og busluðum í vatninu. Áfram héldum við og hjóluðum útí svokallaða Páfuglaeyju. Eða hjóluðum að henni og fórum á hálfgerðum pramma yfir. Þar sáum við allnokkra páfugla sem nánast eltu mann og einn var með rosa sýningu fyrir okkur. Hann var semsagt að gera sig til við "páfuglakonu", sem er notabene voða rytjungsleg og ljót miðað við "páfuglsmanninn" sem er svo gífurlega fallegur að maður á bara ekki til orð. En þarna stóð hann semsagt allur "útglenntur", ef maður getur sagt sem svo, með fjaðrirnar uppí loft og hristi sig svo svakalega að það hvein í öllu!! Varð vitlaus ef aðrir "menn" ætluðu að nálgast "frúnna" en gafst svo upp þar sem hún sýndi honum engan áhuga heldur klíndi hún sér upp við búr þar sem albínóapáfugl valsaði um! Já alveg snjakahvítur, furðulegt!! Við vöfruðum svo um eyjuna og sáum ref, íkorna, fleiri fugla og allar gerðir af skordýrum, fljúgandi loðna orma og fleira skemmtilegt....uppáhaldið mitt!! Komum svo seint og síðar meir heim, beint í mat sem fjölskyldan yndislega var með tilbúin fyrir okkur.

Síðustu tökur á stuttmyndinni kláruðust svo síðasta sunnudag og það eru 12 dagar þangað til ég kem til Íslands!!:o/:o);op;o)

Tuesday, May 16, 2006

Tvær kellingar!!!


Jii fústeringin! Hehe já vikulegt blogg Eddu dottið niður og Edda komin með aldurstremma:-o
Ég reyni venjulega að stefna að einhverjum titli, hvort sem það eru skammarverðlaunin í félagsvist(sem ég held að ég hafi unnið 2 ár í röð!) eða gullmedalíu í sippi!!!

En það er nú bara svo að þegar mest er að gera er minnst um blogg.
Tónleikar, "pikknikk", partý, tónleikar, tökur á stuttmynd, partý, skólinn og svona mætti lengi telja hafa haldið mér uppteknri.

Helst er það að frétta að ég eignaðist lítinn frænda 9. maí, lítinn Magnússon og O.M.G. nú verð ég víst að sætta mig við það að vera ekki tuttugu og eitthvað lengur!!!
Ég er víst þrítug í dag en ekki tuttugu og tíu eins og ég hef viljað halda fram!
Bara orðin kelling!! Nú geng ég alveg fram af Móu minni þar sem það jafngildir dauðasynd
í hennar eyrum að kalla konu kellingu!! hahaha!! Og Þórunn mín...ekkert illa meint;o)
En í dag, á sjálfan afmælisdaginn minn, kemur Steina kleina mín til mín ásamt
fríðu föruneyti henni Soffíu og framundan eru fleiri tónleikar, partý og skemmtilegheit:o)

En síðasta laugardag tók ég forskot á sæluna og hélt snarvitlaust partý á síðustu dögum
ungdóms míns. Það komu um 35 mannst og síðasta fólkið fór um hálf átta um morguninn!!
Síðan hef ég bara verið í því að þrífa fallega appelsínugula TEPPIÐ mitt!!:o/

Svo vil ég (3 dögum of seint:o/) óska henni Þórunni til hamingju með afmælið sitt sem var
þann 13. maí síðastliðinn og er þessi mynd tekin þar sem við stöllurnar erum
að skála í kampavíni í tilefni af afmælum okkar!;o)

Svo er ég farin útá flugvöll þar sem ég á eftir að hitta held ég alla Íslendinga í Berlín að taka á móti vinum og vandamönnum sem eru að koma með fyrstu vél Iceland express til Berlínar!!

Monday, May 01, 2006

Til hamingju Anna Líf!

Eins og mörg ykkar vita, ja eða ekki.....:o/ þá varð frumburðurinn 10 ára þann 25. apríl. Afmælisveislan var haldin á laugardaginn og var hún ansi fjörug. Við héldum að þetta yrði bara frekar lítið, rólegt og afslappað afmæli, allavega miðað við afmælin á Íslandi sem sem yfirleitt eru fullkomin geðveiki!! Anna Líf bauð bara 5 vinkonum sínum úr bekknum og svo eru þeir bara örfáir vinir okkar sem eiga börn svo við skelltum þessu bara saman í eitt afmæli, en heima voru þau yfirleitt tvö ef ekki þrjú!!
Afmælið var allt annað en rólegt og varði frá 2 um daginn og alveg fram á kvöld og endaði á rosa hasar þegar hún Lena litla vinkona okkar “greindist” með Zecken...eitthvað svoleiðis. Lena er sem sagt hundur og Zecken eru “blóðsugur” sem bora sig fasta í húðina. Í erlendum löndum þykir þetta bara ofureðlilegt og hið minnsta mál en við “fáfróðu” Íslendingarnir um þessháttar kvikyndi fengum þetta rosa tilfelli og sjokkeruðumst uppúr öllu valdi!! Við höfðum ekki hina minnstu hugmynd um hvað þetta gæti hugsanlega heitið til að leita upplýsinga á netinu og hvað við ættum að gera. Eftir að hafa hringt út um allan bæ, fengið hin ýmsu nöfn á þessu, hinar ýmsu mismundandi ráðleggingar um hvernig eigi að fjarlægja dýrið og svo endalausar upplýsingar á netinu var ákvörðun tekin um aðgerðir. Við fórum með aumingjans Lenu inná bað, héldum henni þrjú í heljargreipum á upplýstu gólfinu, tilbúin með vodka til að sótthreinsa sárið, Óli með uppbrettar ermar og flísatöng að vopni til að kippa dýrinu út, kveikjara til að brenna það og klósettskálin opin svo hægt væri að skutla því beint ofaní og sturta!! Nú skemmst er frá því að segja að þetta gekk nokkuð áfallalaust fyrir sig og Lenu litlu farnast bara vel;o)
En þetta var mjög skemmtilegt afmæli, skemmtilegur dagur með skemmtilegu fólki og allir sáttir:o)

Í dag er svo 1. maí og hef ég bara haldið mig heimavið. Miðað við viðvaranir um ófriðsamleg mótmæli, uppþot, bílabrennur og fleira þá held ég að það hafi bara verið rétt ákvörðun. Þó held ég að pönkararnir og nýnasistarnir hljóti að hafa tekið út tryllinginn í gær. Það er tala um að 30. apríl eða nóttina fyrir 1. maí sé Hexentanz, eða nornadans eins og Goethe skrifaði um og þá hópast hinir ýmsu mislyndismenn saman í görðum og kveikja elda, drekka ótæpilega og berja mann og annan. Ég hélt mig líka heimavið í gærkveldi;o) Reyndar kom tandem félaginn minn í gærkvöldi svo ég var ekkert á leiðinni út. Við elduðum saman og spjölluðum (uppáhalds orðið hans) saman fram á nótt. Hann heitir Björn, er þýskur og er að læra íslensku og við tölum semsagt saman á þýsku og íslensku. Rosa gaman:o)